þriðjudagur, 29. apríl 2008

Framvinda mála

Það er svo sem ekki mikið að frétta en "nefndin" (við Örn), hélt óformlegan fund á laugardaginn þegar Örn og fjölskylda kom við hjá mér og þáði kaffisopa milli skíðaæfinga í Hlíðarfjalli og sundferðar.

Nú hef ég fengið mest af þeim upplýsingum sem ég þarf frá fólki fyrir niðjatalið en þó er enn eitthvað eftir. Gummi hefur tekið að sér að setja saman æviágrip um ömmu og afa og safna myndum sem gæti verið gaman að hafa með í niðjatalinu. Ef þið hafið eitthvað sem þið teljið að eigi þar heima, þá endilega hafið samband við mig eða Gumma.

Við höfum, eins og áður kom fram, fengið leyfi til að koma í Syðri-Brekkur og Sætún og nú höfum við einnig fengið leyfi til að koma í Eiði og Hallgilsstaði. Mér skilst að það verði dúntaka í gangi á Eiði þannig að við þurfum að haga okkur í samræmi við það.

Það stefnir í góða þátttöku, 41 hefur gefið jákvætt svar, en einhverjir hafa enn ekki getað gefið svar, af ýmsum ástæðum og er það allt í góðu. Vonandi komast bara sem flestir á Langanesið þessa helgi :)

sunnudagur, 6. apríl 2008

Heimsókn í Syðri-Brekkur

Eins og þið vitið langar okkur að heimsækja nokkra staði sem tengjast ömmu og afa, laugardaginn 28. júní. Í innleggi fyrir nokkru síðan (hugmynd að dagskrá) nefndum við Eiði, Sætún og Hallgilsstaði í því sambandi en Syðri-Brekkur komu fljótt til tals líka. Og í dag hringdi okkar yndislega frænka, Kristín Kristjánsdóttir á Syðri-Brekkum, í mig og spurði hvort við myndum hafa áhuga á að heimsækja Syðri-Brekkur og bauðst til að taka á móti okkur, sem ég auðvitað þáði.

Nú hafa 40 manns skráð sig á mótið. Gagnaöflun vegna niðjatalsins er í fullum gangi en einhverjir mega eiga von á hringingu frá annað hvort mér eða Erni fljótlega vegna þess :)