sunnudagur, 29. júní 2008

Að liðnu ættarmóti

Nú er fólk farið að tínast heim eftir vel heppnað ættarmót. Langanesið tjaldaði því sem til er, brim og rigning, alveg eins og eftir pöntun. Við hittumst við Ytra-Lón í gær og héldum út í Eiði, þaðan fór hluti af hópnum upp á Heiðarfjall en hinir í Sauðanes, þar sem allir hittust svo. Næst var haldið í fjöruna á Sætúni, síðan í Hallgilsstaði og að lokum í Syðri-Brekkur þar sem þær systur Kristín og Dilla og Sella mágkona þeirra tóku á móti okkur með kaffi og meðlæti. Í gærkvöld borðuðum við svo saman kúfisksúpu, grillaðar svína- og læmbasneiðar og súkkulaðiköku og hlustuðum á fólk segja sögur.

Frekari sögur koma síðar.

föstudagur, 27. júní 2008

Tölur

Eftir því sem ég kemst næst mun hópurinn telja 35 manns, auk 5 gesta sem við höfum boðið að borða með okkur. Það er heldur færra en vonir stóðu til upphaflega en þetta er auðvitað langt ferðalag fyrir lang flesta og skiljanlegt að einhverjir heltist úr lestinni. Næst höfum við þetta meira miðsvæðis.

Þetta verður sennilega síðasta færsla fyrir ættarmót þannig að ég segi bara góða skemmtun og ég hlakka til að sjá ykkur.

Nýjasta veðurspá

"Norðan 3-8 m/s og skýjað, en úrkomulítið. Norðvestan 3-10 síðdegis, hvassast við ströndina, en rigning undir kvöld. Norðan og norðaustan 5-10 og úrkomuminna á morgun. Kólnandi, hiti 4 til 9 stig á morgun.
Spá gerð: 27.06.2008 06:24. Gildir til: 28.06.2008 18:00."

Tekið af vef Veðurstofunnar.

Það er vissara að hafa stígvélin, pollagallann og flíspeysuna með.

fimmtudagur, 26. júní 2008

Hallgilsstaðir

Og að lokum, örlítið um Hallgilsstaði:

"Hallgilsstaðir eru forn lögbýlisjörð, var 18 hundraða jörð, víðlend, úthagar góðir, engin mikil og þótti jörðin með bestu heyskaparjörðum í hreppnum, torfrista næg, og stunga."

Sætún

Örlítið um Sætún:

"Árið 1936 reistu foreldrar okkar nýbýlið Sætún sem var stofnað úr landi Ytri-Brekkna. Hús jarðarinnar var byggt nálægt sjónum, norðan við landamerkjagarð sem ábúendur Ytri-Brekkna og Syðri-Brekkna gerðu skömmu eftir aldamótin 1900. Býlið fékk afmarkað 20 hektara eignarland, einnig fjörubeit og beitarréttindi fyrir eitt hundrað kindur á Brekknaheiði."

Veðurspáin

Textaspá fyrir Norðurland eystra:

Norðlæg átt, 3-8 m/s. Skýjað með köflum og skúrir á víð og dreif síðdegis, einkum til landsins. Hiti 8 til 14 stig. Norðvestan 3-10 síðdegis á morgun, hvassast við ströndina, kólnar og fer að rigna undir kvöld.
Spá gerð: 26.06.2008 12:22. Gildir til: 27.06.2008 18:00.

Á laugardag:
Norðlæg átt, 8-13 m/s um vestanvert landið, en annars hægari. Víða rigning með köflum og jafnvel slydda til fjalla, en lengst af þurrt og bjart veður SV-lands. Hiti 4 til 15 stig, hlýjast suðvestantil.

Á sunnudag:
Norðaustan 5-10 m/s. Rigning með köflum um mest allt land, en skúrir á Suður- og Suðvesturlandi. Hiti 4 til 13 stig, hlýjast suðvestantil.

Tekið af vef Veðurstofu Íslands.

Dagskrá laugardagsins, í grófum dráttum

Við ætlum að byrja á að fara út í Eiði. Einhverjar líkur eru á Eiðisþoku en er það ekki bara betra? Hittumst við afleggjarann á Ytra-Lóni klukkan 10. Síðan er meiningin að koma við á Sauðanesi, þar sem er starfrækt minjasafn og þeir sem vilja geta skoðað kirkjugarðinn og auk þess er kirkjan þess virði að skoða hana. Á Sauðanesi er starfrækt veitingasala þannig að fólk getur fengið sér hádegissnarl þar. Við stefnum að vera á Sauðanesi um 11. Eftir það liggur leiðin í Sætún og Hallgilsstaði og að lokum í Syðri-Brekkur, þar sem Kristín ætlar að taka á móti okkur.

Eftir þetta er frjáls tími, jafnvel leikir, við högum bara seglum eftir vindi, fram að kvöldmat.

Syðri-Brekkur

Úr niðjatalinu:

"Syðri-Brekkur voru að fornu mati 16 hundraða jörð. Bærinn stendur undir Brekknafjalli. Það er að vestan allbratt en ekki ýkjahátt. Töðugraslautir og bollar eru þar víða og mjög skjólgott. Tún var grasgefið og spratt snemma, naut þar skjóls og raka frá fjallinu, engjar nærtækar og jörðin talin sæmileg heyskaparjörð, úthagar nægir en útigangur lélegur, rekavon góð. Sama ættin hefur byggt Syðri-Brekkur síðan 1795."

Niðjatalið er komið út

Niðjatalið kom úr prentun í gær. Það lítur mjög vel út en ég hef ekki rýnt nákvæmlega í það. Ef það eru einhverjar villur í því, verða þær lagaðar fyrir næsta mót.

Þeir sem ekki verða á staðnum, en vilja kaupa niðjatal, geta lagt inn á mig pening og ég sendi þeim ritið.

Söngskráin er einnig tilbúin. Ég hef þegar rekist á eina villu, enda töluvert minna í hana lagt en niðjatalið. Vona að mér verði fyrirgefið það.

miðvikudagur, 25. júní 2008

Eiði

"Eiði var að fornu mati 27 hundraða jörð. Bærinn stendur við Eiðisvík, norðan við allstórt og djúpt vatn, Eiðisvatn, sem liggur milli Naustans og Heiðar- og Hrollaugsstaðafjalla. Afrennsli er úr vatninu í sjó og gengur silungur í vatnið."

Við ætlum að heimsækja Eiði á laugardaginn, þessi fróðleikur og miklu meira er í niðjatalinu sem ég er að fara að sækja í prentsmiðjuna núna á eftir.

Veðrið

Veðurstofan segir þetta um helgarveðrið:

Á laugardag og sunnudag:
Norðlæg átt, yfirleitt 8-13 m/s og rigning með köflum, en lengst af þurrt og bjart veður SV-lands. Hiti 5 til 14 stig, hlýjast suðvestantil.

Ekkert mjög spennandi þannig að það má ekki gleyma flíspeysunni, pollagallanum og stígvélunum heima.

Sauðanes

Smá fróðleikur um Sauðanes og kirkjuna þar. Einnig á vef Langanesbyggðar.

föstudagur, 20. júní 2008

Nammi namm

Ég minni á matseðilinn:

Forréttur: Kúffisksúpa borin fram með salati og brauði.
Aðalréttur: Grillaðar svína- og lambalærasneiðar með bökuðum kartöflum, salati og öðru meðlæti.
Eftirréttur: Frönsk súkkulaðikaka borin fram með rjóma, ís og ávöxtum.

fimmtudagur, 19. júní 2008

Niðjatalið - aftur

Eins og áður segir er niðjatalið farið í prentun. Hins vegar verður gefinn út geisladiskur með aukaefni og meiningin er að á hann verði sett rafræn útgáfa af niðjatalinu þannig að það er hægt að bæta inn í það. Sá diskur verður ekki útbúinn fyrr en eftir mót þannig að við getum rætt hvað verður á honum um aðra helgi :)

Þetta verður veglegt rit - og diskurinn ekki af verri endanum heldur - og herlegheitin eiga að kosta tvöþúsund krónur. Einhver kom með þá hugmynd að greiða þetta fyrirfram og þar sem það myndi spara mér þó nokkra fyrirhöfn, þá samþykkti ég þá hugmynd og nú þegar eru tíu eintök seld! Ef þið viljið kaupa þetta fyrirfram, þá megið þið leggja inn á mig tvöþúsund krónur (og gjarnan láta senda mér tölvupóst í leiðinni) og ég færi það til bókar. Ef þið sem ekki getið komið viljið kaupa eintak, þá er það auðvitað velkomið líka, mér væri ánægja að senda þetta til ykkar.

Reikningsnúmerið sendi ég til ykkar í tölvupósti.

miðvikudagur, 18. júní 2008

Niðjatalið

Nú er niðjatalið komið í prentun þannig að það verður ekki aftur snúið úr þessu. Vonandi verða allir ánægðir með það, ef ekki, þá verður það lagað næst. Bestu þakkir til allra sem aðstoðuðu mig við þetta verk, það eru þó nokkrir sem eiga eitthvað í því.

föstudagur, 13. júní 2008

Þórshöfn

Á "útilegukortinu" er fróðleikur og myndir frá Þórshöfn.

fimmtudagur, 12. júní 2008

Langanes

Mig langar að benda á smá fróðleik um Langanesið. Á vef Langanesbyggðar eru myndir og fróðleikur og einnig á vef Norðurleiða. Eftirfarandi fróðleikur er af Wikipediu.

"Langanes er stór skagi fyrir austan Þistilfjörð og norðan við Bakkaflóa. Skaginn teygist næstum 40 km út í hafið til norðausturs, allbreiður vestast en mjókkar út í örmjóan bjargtanga austast sem heitir Fontur. Framnes er sá hluti Langaness kallaður, sem er sunnan Þórshafnar, miðnes út að Eiðisskarði en utan þess útnes. Öll býli á útnesinu eru nú komin í eyði. Nesið hefur ávallt verið strjálbýlt, stærsta byggðin er sjávarþorpið Þórshöfn á vesturströndinni.

Lág fjöll og fell liggja norður eftir Langanesi, 200-400 m há og er austurhlutinn er miklu hálendari og undirlendi lítið. Gunnólfsvíkurfjall er hæsta fjallið, 719 m. Nálægt miðju nesinu er Eiðisskarð, sem sker fallgarðinn. Að norðanverðu er Langanes láglent og er breiðasta undirlendið frá Sauðanesi og út að Heiðarfjalli. Útnesið er víða grýtt og hrjóstrugt en að sunnanverðu er það betur gróið. Fjöllin eru úr móbergi að suðaustanverðu en að öðru leyti er nesið úr grágrýti. Láglendið skiptist að mestu í mýrar, grýtta mela og holt. Nokkrar sjaldgæfar jurtategundir vaxa á Langanesi svo sem flétta ein sem kallast klettakróða.

Mikið fuglalíf er á Langanesi, það eru einkum lundi, langvía, álka, teista, fýll og rita sem verpa þar í fuglabjörgum. Undir Skoruvíkurbjargi er klettadrangur, sem heitir Stórikarl og er þar eina súlubyggðin á þessum slóðum.

Bandaríkjaher rak ratsjárstöð á Heiðarfjalli 1954-68. Önnur ratsjárstöð á vegum NATO var reist á Gunnólfsvíkurfjalli 1989."

mánudagur, 2. júní 2008

Styttist í ættarmótið

Nú styttist í ættarmótið, aðeins tæpar fjórar vikur þar til við hittumst. Vinna við niðjatalið er í fullum gangi, gagnaöflun langt komin og töluverður hópur fólks situr sveitt við að skanna inn myndir og skrifa texta, sem ég svo set inn í skjalið. Einnig er tilbúin (held ég örugglega) leikjadagskrá sem hægt verður að grípa til þegar við komum til baka úr skoðunarferðinni á laugardeginum.

Þann 30. maí fjölgaði í hópnum, þegar Önnu Helgu og Kára fæddist dóttir, 14 merkur og 50 cm ef ég man rétt. Hjartanlega til hamingju með dótturina, bæði tvö (sem og amman, afinn og aðrir sem telja sig eiga eitthvað í barninu :) ). Eins og margir vita fóru þær systur (Halldórsdætur) til London í byrjun apríl og gistu hjá Önnu og Kára í nokkrar nætur til að hita upp fyrir mótið, og áttu góða en frekar snjóuga daga hjá þeim. Anna Helga sendi mér myndir og gaf leyfi fyrir því að ég setti þær hér á síðuna.

Einhverjir hafa ekki enn ákveðið hvort þeir muni koma eða ekki en þangað til fólk afboðar sig, vonum við að það komi. Svo ef einhver hefur áhrif hjá veðurguðunum, má sá hinn sami reyna að semja um gott veður handa okkur.